Saga skólans

Leikskólinn Reykjakot í Mosfellsbæ tók til starfa í mars 1994. Fyrsti leikskólastjóri var Halla Jörundardóttir sem tók í upphafi þá stefnu að nýta að mestu náttúrulegan efnivið í stað hefðbundinna leikfanga og gaf skólinn sig sérstaklega út fyrir að byggja kennsluna á notkun svokallaðra einingakubba (Unit blocks) í anda Caroline Pratt.

Árið 1996 varð María Ölveig Ölversdóttir leikskólastjóri og innleiddi hún Hjallastefnuna á Reykjakot.

Margrét Pála Ólafsdóttir höfundur Hjallastefnunnar stýrði skólanum árin 2000 til 2002.

Gyða Vigfúsdóttir var leikskólastjóri árið 2002-2017. Hún bætti matarmenningu Reykjakots og aðgang barna að hollum og góðum mat ásamt Einari Hreini Jónssyni.

Þórunn Ósk Þórarinsdóttir tók við stjórninni sumarið 2017 og hófst hún handa við að innleiða Leikur að læra kennsluaðferðina.

Upphaflega var Reykjakot þriggja kjarna leikskóli en árið 2001 var byggt við skólann til þess að koma mætti fyrir bættri aðstöðu fyrir yngstu nemendurna. Skólinn er því rekinn í tveimur húsum með samliggjandi lóðir og skiptist í fimm kjarna sem nefnast eftir litum; Rauðikjarni, Grænikjarni, Bláikjarni, Gulikjarni og Hvitikjarni. Á árunum 2004-2008 voru sex kjarnar á Reykjakoti. Sjötti kjarninn var staðsettur í Varmárskóla og var þróunarverkefni í starfi með elstu börnum leikskólans þar sem leitast var við að tengja saman leik og grunnskóla og nýta m.a. til þess aðstöðuna í Grunnskólanum. Haustið 2017 fækkaði kjörnum um einn þar sem að Grænikjarni varð að starfsmannaaðstöðu.

Í dag eru kjarnarnir fjórir: Gulikjarni - yngstu börnin, Grænikjarni - 3 ára börnin, Rauðikjarni - 4 ára börnin og Bláikjarni - elstu börnin, 5 ára.

Reykjakot er staðsett í frábæru náttúrulegu umhverfi. Stutt er í fjallgöngur og berjamó á haustin, gaman að skella sér með nesti niður að Varmánni eða í Reykjalundarskóg, heimsækja grænmetisbændur, hesta og allt það skemmtilega sem nágrennið býður upp á. Mikill mannauður hefur safnast að skólanum undanfarin ár í formi okkar frábæra starfsfólks og okkar yndislegu barna.