Velkomin í skólann

Verið hjartanlega velkomin í leikskólann Reykjakot

Um Leikskólann

Leikskólinn Reykjakot leggur áherslu á markvissa og faglega kennslu í gegnum hreyfingu, leik og skynjun en hugmyndafræði skólans byggir á kennsluaðferðinni "Leikur að læra" þar sem samþætting hreyfingar við stærðfræði, bókstafa- og hljóða,-lita og formkennslu er höfð að leiðarljósi.

Reykjakot starfar sem heilsueflandi leikskóli á vegum Embætti landlæknis og leggur sérstaka áherslu á að vinna með átta lykilþætti sem tengjast skólastarfinu. Þeir eru: hreyfing, mataræði, geðrækt, öryggi, tannheilsa, fjölskylda, nærsamfélag og starfsfólk.

Útivera er mikilvægur þáttur í þroska hvers barns og njótum við góðs af stórkostlegri og ósnortinni náttúru Mosfellsbæjar sem við nýtum mikið í starfi okkar utan leikskólalóðar.

Í Reykjakoti eru fjórir kjarnar: Gulikjarni, Rauðikjarni, Bláikjarni og Grænikjarni.

Í leikskólanum eru 86 börn og 24 starfsmenn í 23 stöðugildum.

Leikskólastjóri er Þórunn Ósk Þórarinsdóttir og aðstoðarleikskólastjóri er Kristlaug Þ. Svavarsdóttir.

Viðtalstími leikskólastjóra eða staðgengils hans er daglega frá kl. 9 til 10.

Foreldrafélag Reykjakots

Foreldrafélag Reykjakots stendur fyrir nokkrum uppákomum ár hvert en þó aðallega í tengslum við jólahaldið, jólaballið og samverustund á aðventunni í Hamrahlíðaskógi.

Ný stjórn foreldrafélagsins er valin á foreldrafundi í september og er æskilegt að a.m.k. einn fulltrúi sé frá hverjum kjarna.

Foreldraráð

Foreldraráð leikskólans er skipað þremur fulltrúum foreldra sem kosnir eru á foreldrafundi að hausti. Hlutverk foreldraráðs er að gefa umsagnir til leikskóla og skólanefndar um skólanámskrá og aðrar áætlanir.


Úr lögum um leikskóla

2. gr. Markmið
Í leikskólum skal velferð og hagur barna hafður að leiðarljósi í öllu starfi. Veita skal börnum umönnun og menntun, búa þeim hollt og hvetjandi uppeldisumhverfi og örugg náms- og leikskilyrði. Stuðla skal að því að nám fari fram í leik og skapandi starfi þar sem börn njóta fjölbreyttra uppeldiskosta. Starfshættir leikskóla skulu mótast af umburðarlyndi og kærleika, jafnrétti, lýðræðislegu samstarfi, ábyrgð, umhyggju, sáttfýsi, virðingu fyrir manngildi og kristinni arfleifð íslenskrar menningar.

Meginmarkmið uppeldis og kennslu í leikskóla skulu vera:

a) að fylgjast með og efla alhliða þroska barna í náinni samvinnu við foreldra,
b) að veita skipulega málörvun og stuðla að eðlilegri færni í íslensku,
c) að hlúa að börnum andlega, vitsmunalega og líkamlega í samræmi við þarfir hvers og eins svo að börnin fái notið bernsku sinnar,
d) að stuðla að víðsýni barna og efla siðferðisvitund þeirra,
e) að leggja grundvöll að því að börn verði sjálfstæðir, virkir og ábyrgir þátttakendur í lýðræðisþjóðfélagi sem er í örri og sífelldri þróun,
f) að rækta hæfileika barna til tjáningar og sköpunar í þeim tilgangi m.a. að styrkja sjálfsmynd þeirra, heilbrigðisvitund, öryggi og hæfni til mannlegra samskipta.[1]


Ýmsar hagnýtar upplýsingar


 • Kveðjustundir í fataklefa

Ef kveðjustundir verða of langar getur það skapað óöryggi hjá barninu sem veit ekki nákvæmlega hvort mamma eða pabbi ætla að stoppa í fataklefanum eða ekki. Vegna þessa hvetjum við foreldra til að hafa kveðjustundirnar stuttar, öruggar en fullar af trausti. Munum að kveðjustundin lengir ekki jákvæða samveru fjölskyldunnar heldur lengir á skilnaðarstund sem getur verið barninu erfið.

 • Börn sótt

Mikilvægt er að börn séu sótt á réttum tíma. Ef einhver annar aðili en foreldrar sækja barnið verður að láta starfsfólk kjarnans vita. Aðeins þeir sem verða 12 ára á árinu og eldri mega sækja börn í leikskólann.

 • Veikindi

Leikskólinn getur ekki tekið á móti veiku barni. Nauðsynlegt er að barnið jafni sig vel af veikindunum heima og mæti aftur í leikskólann frískt og tilbúið að taka þátt í daglegri starfsemi úti sem inni. Mikilvægt er að veikindi séu tilkynnt. Börnum er ekki gefin lyf í leikskólanum nema brýna nauðsyn beri til.

 • Foreldraviðtöl

Foreldraviðtöl eru tvisvar á ári, einu sinni á haustönn og einu sinni á vorönn.

Foreldrar geta hvenær sem er óskað eftir viðtali við hópstjóra, kjarnastjóra eða leikskólastjóra.

 • Svefn og hvíld

Á Reykjakoti erum við með hvíldar- og svefnáætlun þar sem hagsmunir barnsins eru í fyrirrúmi. Þessi áætlun er fyrir börn 1 - 3 ára og eru það þá aðallega börn sem eru á Gulakjarna og Grænakjarna.

Svefn og hvíld er barni nauðsynleg ekki síst á fyrstu árum ævinnar þegar vöxtur og þroski er sem örastur. Þreytt barn á erfitt með að takast á við daginn í leikskólanum. Það er erfitt að vekja fjölda barna á mismunandi tíma þar sem það truflar hvíld barnanna. Börnin eiga jafnframt erfitt með að vakna ef þau eru skyndilega tekin úr sínum hvíldaraðstæðum og getur það valdið því að þau verða vansæl og eiga erfitt með að halda áfram í leik og starfi.

Starfsfólk hefur farið á fyrirlestur hjá Örnu Skúladóttur hjúkrunarfræðing og svefnráðgjafa Barnaspítala Hringsins. Hún hvetur foreldra til að ná utan um hvíld og svefn barna sinna.

Boðið verður upp á þrjá möguleika í hvíldarstund yngstu barnanna á Reykjakoti:

Hvíld 1

Börnin fara í hvíld kl: 12:30 (eftir hádegismat) og hvíld stendur til 14:00. Þá er dregið frá og kveikt á rólegri tónlist eða starfsmaður spjallar við börnin og þá geta börnin vaknað í rólegheitum

Hvíld 2

Börnin fara í hvíld kl: 12:30 (eftir hádegismat) hvíld er í 45 mínútur. Þá verður dregið frá og kveikt á rólegri tónlist eða starfsmaður spjallar við börnin.

Hvíld 3

Þau börn sem sofa ekki verða í rólegri stund frá 12:30 - 13:00.

Með þessu,skipulagi viljum við minnka streitu og auka gæði hvíldarstundar fyrir börnin á Reykjakoti


 • Vefsíða Reykjakots og tölvukerfi leikskólans

Reykjakot er með heimasíðuna: reykjakot.leikskolinn.is. Þar er að finna ýmsar mikilvægar upplýsingar um leikskólann og starfsemi hans.

Skólinn notar Karellen leikskólakerfið sem foreldrar þurfa að skrá sig inn í. Það gera þeir með því að fara inn á karellen.is, undir innskráning. Haka við virkja aðgang. Þar skráir foreldri netfang sitt sem það gaf upp á upplýsingablaði barns síns. Þá fær foreldri sendan link í tölvupósti sem það fer inn á og velur sér sitt eigið lykilorð. Þá kemst viðkomandi foreldri inn í kerfið með því að skrá notendanafn sitt sem er kt. og það lykilorð sem það bjó til sjálft. Inn í Karellen kerfinu getur foreldri skráð barn sitt veikt eða í leyfi, foreldri hefur meiri aðgang að samskiptum við kennara síns barns, skoðað myndir af sínu barni og fleira.

 • Hlífðar- og aukaföt

Mikilvægt er að barnið hafi þau útiföt sem henta hverju sinni. Í töskunni verður alltaf að vera pollagalli, stígvél, þykk peysa(flíspeysa), ullarsokkar,húfa og vettlingar. Í körfunni í fataklefa verða að vera aukaföt s.s. nærföt, sokkar, sokkabuxur (gammósíur), buxur og peysa. Einnig er gott að hafa meðferðis auka vettlinga og húfu ef blautt og kalt er í veðri.

Á sumrin er nauðsynlegt að vera með léttan sumarjakka og/eða peysu, derhúfu eða sólhatt. Á leikskólanum erum við með hefðbundnar sólarvarnir, oft frá Nivea. Ef foreldrar vilja að barn sitt sé með einhverja aðra tegund þurfa börnin að koma með sína eigin sólarvörn í leikskólan. Venjan er að foreldrar beri sólarvörn á barn sitt að morgni sólardags og kennarar bæta svo sólarvörn við þegar líður á daginn.

 • Merkingar fatnaðar

Afar mikilvægt er að merkja föt barnanna því það er alltaf leiðinlegt þegar eitthvað týnist. Nær ógjörningur er fyrir starfsfólk að þekkja föt allra barnanna en merkingar auðvelda okkur mjög starfið. Við bendum á fatatúss og merkimiða sem hægt er að panta á netinu á www.rogn.is eða https://www.mynametags.com.

 • Mætingar barna

Best er fyrir barnið að mæta alltaf á svipuðum tíma í leikskólann. Börn eru vanaföst og það skapar öryggi fyrir barnið að vita alltaf hvert dagskráin er komin þegar það mætir. Mikilvægt er að foreldrar hafi kveðjustund við barn sitt stutta og haldi rútínu í þeim efnum, t.d. með því að kyssa og segja bless. Ef barn er í vandræðum með þetta þarf foreldri að ræða úrræði við kennara síns barns. Ef barn er í leyfi eða veikt er hægt að tilkynna það með því að nota karellenkerfið, karellenappið eða þá að hringja ef það hentar foreldrum betur,

 • Dót að heiman

Allt dót að heiman á að vera heima. Ef barn kemur með dót að heiman skapar það óþægindi bæði fyrir hin börnin og kennarana. Gott er að barnið venjist því strax í byrjun að dót á að vera heima. Reglulega eru haldnir dótadagar en þeir eru fyrsta föstudag í hverjum mánuði þar sem í boði er að koma með dót. Keludýr og dót sem börn þurfa sér til halds og trausts í hvíld eru að sjálfsögðu velkomin, einnig er velkomið að hafa með sér keludýr, ef með þarf, þegar börn eru í aðlögun.

 • Afmæli

Þegar börn eiga afmæli höldum við upp á það hér í leikskólanum. Afmælisbarnið fær kórónu og bíður öllum börnunum á kjarnanum upp á ávexti. Afmælisbarnið er tollerað (ef það vill) og sungið er fyrir það. Það er ekki venjan að foreldrar komi með veitingar að heiman en ef foreldrar óska eftir því að koma með veitingar eru niðurskornir ávextir og/eða grænmeti í boði.

 • Skóladagatal

Á hverju hausti er haldinn foreldrakynningafundur, yfirleitt í september. Þar er starfsemi leikskólans kynnt og fá foreldrar skóladagatal Reykjakots afhent. Þar gefur að líta dagskrá skólaársins og fyrihugaðar uppákomur, skemmtanir og lokanir. Starfsdagar leikskólans eru þrír, einn námskeiðsdagur auk sérstaks orlofsdags starfamanna sem fjórða í jólum. Þessa daga er leikskólinn lokaður. Auk þessara daga er leikskólinn lokaður alla lögbundna frídaga.


[1] Lög um leikskóla nr. 90/2008, 2. gr